laugardagur, desember 20, 2008

Fjölmiðlalöggæsla

Upp á síðkastið hefur borið nokkuð á þeirri skoðun að ströng fjölmiðlalög hefðu komið í veg fyrir hrun íslensks efnahagslífs. Ég leyfi mér að efast um það. Þau lög fjölluðu um eignarhald á fjölmiðlum. Hvernig er hægt að halda því fram að þeir hefðu ekki spilað með í vitleysunni samt? Fjölmiðlarnir hefðu eftir sem áður verið háðir kaupum á auglýsingum og velvilja lánardrottna sinna. Ekki síður stjórnvalda.

Undanfarin ár hefur eignamönnum verið hyglað á allan hátt. Heimildir þeirra verið auknar og skyldur þeirra minnkaðar. Þeim var meira að segja frjálst að kaupa hlutabréf í sjálfum sér, aftur og aftur. Það var eiginhagsmunarunk og þeir máttu, enda sjálfstæðir og frjálsir.

Almennir borgarar fengu brauð og leika til að vera til friðs. Hættulegast þótti að fólk fengi að hugsa og taka sjálft afstöðu til málanna, t.d. með þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilsverð mál: Evrópumál, fjölmiðlalög o.s.frv. Eignamenn hefðu getað misst krónu úr veski sínu.

Þetta voru átök þeirra sem fæddust auðugir og þeirra sem slegist höfðu til ríkidæmis. Tveir frekir krakkar slógust og fjölmiðlalögin voru bara sársaukafull klípa, hártog eða pungspark í þeirri viðureign. Og enn slást krakkakvikindin, veltast um stofuna brjótandi og bramlandi.

Stjórnarheimilið kann ekki að ala þá upp. Armur laganna stendur lamaður út úr þjóðarbúknum. Þingið hugsar bara um ásjónu sína, varalitar sig skjálfhent og meikar ekki að fara allsgáð í atkvæðagreiðslu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli